Um okkur

TEAM  FAGURHÓLSBREKKA

Fagurhólsbrekka er fjölskyldufyrirtækið okkar sem starfar við ýmislegt tengt hestamennsku.

Mannauðurinn í fyrirtækinu okkar samanstendur af fjölskyldunni okkar, ásamt samstarfsaðilum, sem saman mynda heild sem vinnur með fagmennsku að leiðarljósi og skýr gildi um hestamennskuna okkar.  Allir leggjast á eitt við það að hestar og knapar fái tækifæri til þess að vaxa og dafna, styrkjast og bæta sig í öruggu og hvetjandi umhverfi.

Við erum með litla ræktun, ölum upp, temjum og þjálfum hrossin okkar á Fagurhólsbrekku, rétt við Flúðir í einstöku náttúruumhverfi uppsveitanna. 

Starfsemin okkar snýst að mestu leyti um það að rækta og selja hross ásamt kennslu, þjálfun og uppeldi. 

Við leggjum mikið upp úr persónulegri þjónustu, góðu og vönduðu utanumhaldi við hvern hest og knapa ásamt því að vinna eftir skipulegu kerfi okkar í allri umgengni við hestinn þar sem hver einstaklingur fær besta mögulega atlæti allt frá uppvexti og upp í tamningu. 

Við höfum áratuga reynslu sem hestafólk frá blautu barnsbeini, og fjölskyldan hefur haft hestamennskuna og allt sem viðkemur henni að lífstíl og aðalatvinnu um langt skeið. 

Árið 2005 fluttum við fjölskyldan búferlum til Svíþjóðar, þar sem við rákum eigin hestabúgarð og áttum hann allt fram til ársins 2018. Árin í Svíþjóð voru fjölskyldunni lærdómsrík þar sem kennsla og námskeiðahald var fyrirferðarmikið hjá okkur ásamt því að temja, þjálfa og sýna kynbótahross. 

Eftir flutning til Íslands aftur og búsetu í Hafnarfirði fundum við að við vildum komast aftur í sveitina og úr varð flutningur austur fyrir fjall og undirbúningur að uppbyggingu á aðstöðu sem er nýlega hafinn á Fagurhólsbrekku.

Hér á síðunni má finna ýmsa þjónustu og varning sem við bjóðum.

 

Verið velkomin að hafa samband

 

 

Reiðkennari frá Hólaskóla og hefur um árabil verið eftirsóttur reiðkennari bæði hér heima sem og erlendis hjá knöpum á öllum stigum íþróttarinnar. 

Þar að auki starfar Hinni sem afreksstjóri hjá Landssambandi hestamanna og tilheyrir þannig starfsteymi Íslenska landsliðsins í hestaíþróttum og ber ábyrgð á afreksstefnu sambandsins.

Sem þjálfari hefur Hinni í gegnum árin lagt sérstaka áherslu á þjálfun hugrænna þátta og hefur m.a haldið fjölda fyrirlestra hjá fyrirtækjum og íþróttafélögum um hugarþjálfun, markmiðasetningu og fleira því tengt. 

 

Sjúkraliði frá Nystömskaskolan í Söderköping í Svíþjóð. Hún starfaði fyrir flutninginn austur sem flæðisstjóri hjá ÞR sem tilheyrir Íslenskri Erfðagreiningu. Beta er núna í námi til viðurkennds bókara.

Beta hefur séð um alla umgjörð, skipulagningu og bókhaldshlið fyrirtækisins. Hún hefur brennandi áhuga á ræktun hrossa enda fædd og uppalin í því umhverfi og veit ekkert betra en að fylgjast með stóðinu úti í haga árið um kring. 

 

Fæddur 2005. Stúdent frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Ísar Bjarki rekur sitt eigið fyrirtæki, Dasar ehf, ásamt vini sínum og er þar að auki yfirmaður á flottum veitingastað í miðbæ Reykjavíkur.

 

Fæddur 2007. Nemi á lokaári í stafrænni markaðsfræði hjá Verslunarskóla Íslands. Aron Valur rekur þar að auki sitt eigið fyrirtæki sem sérhæfir sig í vefsíðugerð og gluggaþvotti meðfram náminu.

 

Fædd 2010. Nemi í 10.bekk Reykholtsskóla í Bláskógabyggð. Árný Sara stundar hestamennsku að kappi og hefur náð góðum árangri í íþróttinni. Árný var í afrekshópi Sörla fyrir flutning austur og var valin núna í þriðja sinn inn í Hæfileikamótun LH og sinnir tamningum og þjálfun hrossa á Fagurhólsbrekku.

 

Fæddur 2018. Nemi í 2.bekk í Reykholtsskóla í Bláskógabyggð og stefnir á að verða mikill hestamaður í framtíðinni. Æfir handbolta af kappi og skottast í kringum hestana eins mikið og hægt er.